Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 619. máls.
Prentað upp.

Þingskjal 1072  —  619. mál.
Leiðréttur texti.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um vörugjald, nr. 97/1987, og tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum (lagfæringar á tilvísunum og tollskrárnúmerum vegna álagningar á sykur og sætuefni).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.
1. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Í stað orðsins „ríkisskattstjóri“ í 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: tollstjóri.

3. gr.

    Í stað orðanna „2. mgr. 8. gr.“ í 5. mgr. 7. gr. laganna kemur: 2. mgr. 14. gr.

4. gr.

    Í stað orðanna „vaxtalögum, nr. 25/1987“ í 7. mgr. 9. gr. laganna kemur: lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á viðauka I við lögin:
     a.      Við A-lið viðaukans bætist tollskrárnúmerið 2106.9039, sem skal bera vörugjaldið 95 kr./kg.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „210 kr./kg“ á tollskrárnúmerum 2106.9022 og 2106.9063 í A-lið viðaukans kemur: 168 kr./kg.
     c.      Í stað tollskrárnúmersins 2934.9200 í A-lið viðaukans kemur: 2934.9910.
     d.      Tollskrárnúmerin 2905.4300, 2905.4400, 2905.4910, 2932.1910 og 2940.0010 bætast við A-lið viðaukans og skulu bera vörugjaldið 42.000 kr./kg.
     e.      Tollskrárnúmerin 2203.0091, 2203.0092, 2203.0093, 2203.0094, 2203.0095, 2203.0096 og 2203.0099 falla brott úr B-lið viðaukans.

II. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.
6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á tollskrá í viðauka I við lögin:
                                       A     A1     E
                                       %     kr./kg     %
     a.      Tollskrárnúmerin 2202.1011 til og með tollskrárnúmerinu 2202.1029 ásamt fyrirsögnum falla brott og í staðinn kemur:
                    –    –    Gosdrykkir með viðbættum sykri eða sætiefnum
        2202.1011     –    –    –    Í einnota stálumbúðum          20     0
        2202.1012     –    –    –    Í einnota álumbúðum          20     0
        2202.1013     –    –    –    Í einnota glerumbúðum stærri en 500 ml          20     0
        2202.1014     –    –    –    Í einnota glerumbúðum, 500 ml og minni          20     0
        2202.1015     –    –    –    Í einnota plastumbúðum, lituðum          20     0
        2202.1016     –    –    –    Í einnota plastumbúðum, ólituðum          20     0
        2202.1019     –    –    –    Annars          20     0
                     –    –    Gosdrykkir án viðbætts sykurs eða sætiefna
        2202.1031     –    –    –    Í einnota stálumbúðum          20     0
        2202.1032     –    –    –    Í einnota álumbúðum          20     0
        2202.1033     –    –    –    Í einnota glerumbúðum stærri en 500 ml          20     0
        2202.1034     –    –    –    Í einnota glerumbúðum, 500 ml og minni          20     0
        2202.1035     –    –    –    Í einnota plastumbúðum, lituðum          20     0
        2202.1036     –    –    –    Í einnota plastumbúðum, ólituðum          20     0
        2202.1039     –    –    –    Annars          20     0
                     –    –    Sérstaklega tilreitt fyrir ungbörn og sjúka:
        2202.1041     –    –    –    Í pappaumbúðum          20     0     
        2202.1042     –    –    –    Í einnota stálumbúðum          20     0
        2202.1043     –    –    –    Í einnota álumbúðum          20     0
        2202.1044     –    –    –    Í einnota glerumbúðum stærri en 500 ml          20     0
        2202.1045     –    –    –    Í einnota glerumbúðum, 500 ml og minni          20     0
        2202.1046     –    –    –    Í einnota plastumbúðum, lituðum          20     0
        2202.1047     –    –    –    Í einnota plastumbúðum, ólituðum          20     0
        2202.1049     –    –    –    Annars          20     0
     b.      Á 29. kafla verða eftirfarandi breytingar:
                  1.      Tollskrárnúmerin 2940.0010 og 2940.0090 bætast við vöruliðinn 2940, svohljóðandi:
                  2940.0010     –     Sætiefni til matvælaiðnaðar          0
                  2940.0090     –     Annað          0
                  2.      Tollskrárnúmerið 2932.1910 og 2932.1990 bætist við vöruliðinn 2932, svohljóðandi:
                      –    –    Annars:
                  2932.1910     –    –    –    Sucralose og önnur sætiefni til matvælaiðnaðar          0
                  2932.1990     –    –    –    Annars          0
                  3.      Tollskrárnúmerið 2905.4900 fellur niður og í staðinn kemur:
                      –    –    Annars:
                  2905.4910     –    –    –    Sætiefni til matvælaiðnaðar          0
                  2905.4990     –    –    –    Annars          0

7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2013.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Þann 22. desember 2012 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 156/2012, um breytingu á lögum um vörugjald, nr. 97/1987, og tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum. Þeim lögum var ætlað að færa álagningu vörugjalda í það horf að hún hvetji til neyslu á hollari matvælum á þann hátt að gjöldin leggist eingöngu á vörur sem innihalda sykur eða sætuefni. Jafnframt var innlendum framleiðendum og innflytjendum gert kleift að greiða vörugjald af vörum sínum í samræmi við sykurinnihald vöru. Innflytjendur hafa þannig möguleika á að tilgreina á tollskýrslu sykurinnihald vörugjaldsskyldrar vöru og innlendir framleiðendur hafa möguleika á að kaupa sykur með vörugjaldi og standa þannig skil á greiðslu vörugjalds á grundvelli raunverulegs sykurinnihalds. Bæði innlendir framleiðendur og innflytjendur hafa þó möguleika á því áfram að standa skil á vörugjaldi með sama hætti og áður var gert, þ.e. innflytjendur greiða vörugjald við innflutning í samræmi við það gjald sem lagt er á það tollskrárnúmer sem vara fellur í og framleiðendur af sinni framleiðslu, einnig í samræmi við tollflokkun. Lögin munu taka gildi þann 1. mars 2013.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til lagfæringar vörugjaldslögunum til viðbótar þeim sem samþykktar voru með lögum nr. 156/2012. Flestar eru smávægilegar og snúast um það hvaða tollskrárnúmer það eru sem innihalda sykur eða sætuefni og hversu hátt hlutfall sykurs eða sætuefna er í hverju númeri.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni lagasetningarinnar er það að borist hafa tillögur um breytingar frá tollstjóra og þeim aðilum sem koma til með að standa skil á vörugjaldi af framleiðsluvörum sínum og innflutningi. Tillögurnar eru þess eðlis að talið er rétt að bregðast við þeim enda fyrst og fremst um hnökra að ræða á fyrri lagasetningu.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarpsins má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi er um að ræða lagfæringar og uppfærslur á lögum um vörugjald. Í öðru lagi er um að ræða breytingar á viðauka I við lög um vörugjald og í þriðja lagi er um að ræða breytingar á tollskrá í viðauka I við tollalög.
    Lagfæringar á ákvæðum laganna sjálfra, þ.e. 1.–4. gr. í frumvarpinu, eru smávægilegar og snúast um að leiðrétta tilvísanir til annarra laga sem hafa breyst, fella brott tilvísun til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og breyta tilvísun til ríkisskattstjóra í tollstjóra.
    Breytingum á viðauka I má skipta í fernt. Í fyrsta lagi er lagt til að nokkur tollskrárnúmer verði felld brott úr viðaukanum á grundvelli þess að þau innihalda hvorki sykur né sætuefni. Í öðru lagi er lagt til að gjaldi verði breytt á nokkrum númerum þar sem komið hefur í ljós að sykurinnihald þeirra vara sem falla í tollskrárnúmerin er annaðhvort hærra eða lægra en áður var talið. Í þriðja lagi er svo lagt til að nokkrum tollskrárnúmerum verði bætt við lögin þar sem komið hefur í ljós að vörur sem falla undir tollskrárnúmerin innihalda sykur eða sætuefni.
    Breytingarnar á tollskrá í viðauka I við tollalög skiptast í tvennt. Í fyrsta lagi er um það að ræða að tollskrárnúmerum sem innihalda bragðbætt gos sem ekki inniheldur sykur eða sætuefni er bætt við 22. kafla tollskrár. Breytingunni er ætlað að tryggja að umrædd vara lendi ekki í álagningu vörugjalds. Í öðru lagi er tollskrárnúmerum í 29. kafla tollskrár skipt upp til þess að tryggja að álagning vörugjalda á sætuefni gangi jafnt yfir öll sætuefni.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá.

V. Samráð.
    Með gildistöku laga nr. 156/2012, um breytingu á lögum um vörugjald, nr. 97/1987, og tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum, þann 1. mars 2013, verður umfangsmikil kerfisbreyting á fyrirkomulagi á álagningu vörugjalda á matvæli. Ekki þarf að koma á óvart að við útfærslu á svo umfangsmikilli breytingu komi í ljós hnökrar sem bregðast þarf við. Samráð hefur verið haft við embætti tollstjóra sem annast framkvæmd þessara laga og hagsmunasamtök þeirra aðila sem þurfa að leggja vörugjaldið á. Ekki er ósennilegt að frekari hnökrar komi í ljós þegar reyna fer á framkvæmdina eftir 1. mars nk. sem kallað gæti á frekari breytingar síðar að höfðu samráði við hagsmunaaðila. Ekki var talin þörf á samráði við önnur ráðuneyti við vinnslu þessa frumvarps.

VI. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst framleiðendur og innflytjendur vörugjaldsskyldra matvæla sem og álagningaraðila gjaldsins. Þar sem ekki er talið að frumvarpið valdi breytingum á tekjum ríkissjóðs er að sama skapi ekki talið að það hafi mikil áhrif á neytendur.
    Lögum nr. 156/2012 var ætlað að leiða til einfaldari stjórnsýslu og minni reglubyrði en áður var. Þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi stuðla jafnframt að því markmiði. Með því að aðlaga álagningu gjaldsins á grundvelli sykurinnihaldsins sem næst raunverulegu sykurinnihaldi eru meiri líkur á því að innlendir framleiðendur kjósi að nýta sér þann valkost að kaupa sykur með vörugjaldi og sleppa þannig við skýrslur og aðrar skyldur sem fylgja skilum á vörugjaldi. Á sama tíma dregst umfang eftirlits og stjórnsýslu með skilum á vörugjaldi saman. Til lengri tíma væri mjög æskilegt að allir innlendir framleiðendur greiddu vörugjald með innkaupum sínum á vörugjaldsskyldum sykri.
    Í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 156/2012 var markmið breytinganna m.a. að vörugjald yrði greitt af raunverulegu sykurinnihaldi gjaldskyldrar vöru. Þessu frumvarpi er einfaldlega ætlað að styðja við að það markmið verði að veruleika. Af þeirri ástæðu er ekki talið að þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi leiði til breytinga á tekjum ríkissjóðs.
    Um áhrif af samþykkt frumvarpsins er að öðru leyti vísað til almennra athugasemda með frumvarpi sem varð að lögum nr. 156/2012, eftir því sem við getur átt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1.–4. gr.

    Í 1.–4. gr. frumvarpsins er að finna smávægilegar lagfæringar á lögunum sjálfum. Í fyrsta lagi er lagt til að tilvísun til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli verði felld brott þar sem hún á ekki lengur við. Í öðru lagi eru leiðréttar tilvísanir til annarra laga sem hafa breyst. Í þriðja lagi er orðinu „ríkisskattstjóri“ skipt út fyrir orðið „tollstjóri“ þar sem tollstjóri mun taka við skyldum ríkisskattstjóra er varðar álagningu vörugjalda frá og með 1. mars nk.

Um 5. gr.

    Í greininni er lagt til að fjárhæð vörugjalds á sýróp í tollskrárnúmerunum 2106.9022 og 2106.9063 verði lækkað úr 210 kr./kg í 168 kr./kg þar sem sykurinnihald sýróps í þessum tollskrárnúmerum er lægra en sagt er til um í núverandi útgáfu viðaukans.
    Í öðru lagi er lagt til að tilteknum tollskrárnúmerum verði bætt við viðaukann. Um er að ræða tollskrárnúmer sem innihalda sykruð þykkni og nokkrar tegundir sætuefna. Jafnframt er lagt til að tollskrárnúmerið 2934.9910, sem inniheldur sætuefnið aspartam, komi í stað tollskrárnúmersins 2934.9200 en það númer er misritað í núgildandi útgáfu viðaukans. Gjald á númerið 2934.9910 kemur þó til með að vera það sama og lagt er á númerið 2934.9200.
    Í þriðja lagi er lagt til að tollskrárnúmer sem innihalda bjór verði fjarlægð úr viðaukanum þar sem fullgerður bjór inniheldur ekki viðbættan sykur.

Um 6. gr.

    Í greininni er að finna breytingar á tollskrá sem flestar leiðir af þeim breytingum sem lagðar eru til í I. kafla.
    Í a-lið er lagt til að gosdrykkir sem eingöngu innihalda bragðefni en hvorki sykur eða sætuefni verði tollflokkaðir sérstaklega svo þeir lendi ekki í álagningu vörugjalds með sykruðum gosdrykkjum. Með greininni er því lagt til að sérstök tollskrárnúmer verði tekin upp fyrir þessa tegund gosdrykkja.
    Í b-lið er lagt til að nokkrum tollflokkum sem innihalda tiltekin hrein sætuefni verði skipt upp til þess að mögulegt verði að leggja vörugjald á viðkomandi efni.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörugjald, nr. 97/1987, og tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum (lagfæringar á tilvísunum og tollskrárnúmerum vegna álagningar á sykur og sætuefni).

    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, vegna breytinga sem gerðar voru á þeim með lögum nr. 156/2012. Í þessu frumvarpi er um að ræða breytingar á lista yfir vörur sem innihalda sykur og sætuefni og breytingar á tollskrá. Meginmarkmið þess frumvarps sem varð að lögum nr. 156/2012, samkvæmt athugasemdum við það, var að dreifa gjöldum í auknum mæli í samræmi við manneldissjónarmið, samræma betur álagningu gjaldsins og að mæta tekjumarkmiðum fjárlagafrumvarps fyrir árið 2013. Í athugasemdunum kemur jafnframt fram að lagt sé upp með að vörugjald verði greitt af raunverulegu sykurinnihaldi gjaldskyldrar vöru. Þessu frumvarpi er ætlað að styðja við að það markmið náist.
    Meginefni frumvarpsins snýr annars vegar að lagfæringum og uppfærslu á lögunum sjálfum og hins vegar að breytingum á viðauka I við lögin. Lagfæringar á lögunum sjálfum eru smávægilegar og snúast um að leiðrétta tilvísanir til annarra laga eða aðila sem hafa breyst. Breytingum á viðauka I má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi er lagt til að nokkur tollskrárnúmer verði felld brott úr viðaukanum á grundvelli þess að þau innihalda hvorki sykur né sætuefni. Í öðru lagi er lagt til að gjaldi verði breytt á nokkrum númerum þar sem komið hefur í ljós að sykurinnihald þeirra vara sem falla undir tollskrárnúmerin er annaðhvort hærra eða lægra en áður var talið. Í þriðja lagi er svo lagt til að nokkrum tollskrárnúmerum verði bætt við lögin þar sem komið hefur í ljós að vörur sem falla undir þau númer innihalda sykur eða sætuefni.
    Þar sem þær breytingar sem hér eru lagðar til ættu ekki að leiða til breytinga á neyslumynstri almennings á sykurvörum er talið að þær tekjuáætlanir sem gerðar voru vegna frumvarps sem varð að lögum nr. 156/2012 haldi gildi sínu. Verði frumvarpið að lögum er því gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði óbreyttar frá áætlun fjárlaga fyrir árið 2013.